Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 194 . mál.


Ed.

234. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 77/1979, um Háskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     17. gr. laganna orðast svo:
     Háskólaárið telst frá 5. september til jafnlengdar næsta ár. Kennsluár Háskólans skiptist í tvö kennslumissiri, haustmissiri og vormissiri. Missiraskipting, leyfi og önnur kennsluhlé skulu ákveðin í reglugerð. Háskólaráði er heimilt að ákveða sérstaka missiraskiptingu fyrir einstakar deildir og námsbrautir.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt samkvæmt tillögu háskólaráðs og lýtur að því að Háskóli Íslands fái aukið svigrúm til breytinga á skiptingu kennslumissira. Ef frumvarpið verður að lögum verður unnt að staðfesta tillögur sem háskólaráð hefur samþykkt um reglugerðarbreytingar sem kveða á um færslu miðsvetrarprófa frá janúar til desember og fleiri breytingar varðandi próf. Með samþykkt lagafrumvarpsins og viðeigandi reglugerðarbreytingum yrði stefnt að meiri samræmingu en nú er í skiptingu kennslumissira en það mundi auðvelda starf háskólans almennt, þar á meðal að gefa aukna möguleika á valfrelsi og samstarfi á milli deilda.
    Samkvæmt núgildandi 17. gr. laga nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, telst háskólaárið frá 15. september til jafnlengdar næsta ár og skiptist þannig að haustmissiri er frá 15. september til 23. janúar, en vormissiri frá 24. janúar til 31. maí. Háskólaráð getur þó ákveðið aðra missiraskiptingu fyrir einstakar deildir og námsbrautir.
    Talsvert mismunandi er hvenær kennsla hefst í einstökum deildum Háskóla Íslands. Þannig byrjar kennsla á tímabilinu 1. til 8. september í námsbraut í sjúkraþjálfun, lyfjafræði lyfsala, námsbraut í hjúkrunarfræði, verkfræðideild og raunvísindadeild, en á tímabilinu 12. til 22. september í læknadeild, guðfræðideild, lagadeild, viðskipta - og hagfræðideild, heimspekideild, tannlæknadeild og félagsvísindadeild. Miðsvetrarpróf eru í öllum deildum frá 7. til 23. janúar nema í lagadeild. Vormissiri hefst í öllum deildum 24. janúar nema í lagadeild 8. janúar. Vorprófin eru frá 27. apríl til 26. maí í lagadeild, 15. til 31. maí í verkfræðideild og raunvísindadeild, en frá 5. maí til 31. maí í öðrum deildum. En fáein dæmi eru einnig um það að skrifleg próf að vori séu haldin á öðrum tíma en hinum almenna próftíma. Þá er kennslutímabil á missiri mismunandi langt hjá deildum háskólans: Almennt 13 vikur en 15 vikur í verkfræðideild og raunvísindadeild. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að erfitt er að samræma kennslu - og próftíma fyrir háskólann þannig að allar deildir búi við sama skipulag.
    Í flestum erlendum háskólum er upphaf kennslumissira og lok á sama degi hjá öllum deildum og próftími deilda á sama tímabili. Slíkt fyrirkomulag er mjög æskilegt með tilliti til valnáms stúdenta í öðrum deildum en þeirra eigin. Fram að þessu hefur valfrelsi milli deilda við Háskóla Íslands verið takmarkað en vaxandi áhugi er nú á því að það verði aukið, m.a. í tengslum við MA - eða MS - nám, þar sem í sumum tilvikum er gert ráð fyrir samvali greina úr mismunandi námsbrautum og/eða mismunandi deildum. Hjá háskóladeild, sem nýtur í ríkum mæli þjónustukennslu annarrar deildar, er mjög mikilvægt að próftíminn verði samræmdur, og einnig æskilegt að kennslutímabil fari saman. Þannig er sérstaklega brýnt að raunvísindadeild og verkfræðideild verði samstiga vegna þess að sú síðarnefnda sækir stóran hlut af námi á fyrstu tveimur árunum til hinnar fyrrnefndu. Þá annast raunvísindadeild einnig þjónustukennslu fyrir læknadeild, bæði í læknisfræði, lyfjafræði lyfsala og hjúkrunarfræði og hefur það valdið vandræðum að próftími þessara námsbrauta hefst áður en kennslu lýkur í raunvísindadeild.
    Í skoðanakönnun meðal stúdenta á sl. ári um próftíma í lok haustmissiris kom fram að 77% vildu færa próftímann fram í desember, tæplega 17% voru því andvígir, en tæp 7% tóku ekki afstöðu. Það er því ljóst að mikill meiri hluti stúdenta er fylgjandi þessari breytingu. Auk þess hafa tvær deildir, félagsvísindadeild og raunvísindadeild, formlega samþykkt að mæla með því að próf verði færð fram í desember.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein felast efnisatriði lagabreytingarinnar, sbr. almenna greinargerð hér að framan. Háskólaárið er talið hefjast 5. september þannig að haustmissiri geti lokið fyrir jólaleyfi. Skipting kennslumissira yrði ekki lengur bundin við ákveðnar dagsetningar í lögum en sett yrðu nánari ákvæði um skiptinguna í reglugerð.

Um 2. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.